5,6 milljarða hagnaður eftir skatta var af starfsemi Íslandsbanka á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Til samanburðar var hagnaðurinn 3,6 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi ársins 2011. Þetta kemur fram ársfjórðungsuppgjöri bankans sem birt var nú í kvöld.

Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 17,7% á ársgrundvelli sem er töluvert hærra en í fyrra. Á fyrstu þremur mánuðum 2011 var arðsemi eigin fjár 11,7% á ársgrundvelli. Heildareignir bankans nema um 792,4 milljörðum króna og heildarinnlán eru um 509,3 milljarðar.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að um 18.200 einstaklingar og um 3.000 fyrirtæki hafa fengið afskriftir, eftirgjafir eðaleiðréttingar á skuldum frá stofnun bankans sem nemur um 370 milljörðum króna. „Íslandsbanki kemur sterkur út úr fyrsta ársfjórðungi 2012. Eigið fé bankans er vel yfir lágmarks kröfum eftirlitsaðila og hagnaður af reglulegri starfsemi hefur styrkst. Þessi ársfjórðungur verður ávallt merkilegur í sögu bankans en þá lauk sameiningu Íslandsbanka og Byrs," segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka meðal annars í tilkynningu frá bankanum.