Hagnaður félags Arnaldar Indriðasonar á síðasta ári nam 35,5 milljónum króna. Félag glæpasagnahöfundarins, Gilhagi ehf. birti nýlega ársreikning sinn en félagið er notað utan um skrif og útgáfu bóka hans að því er fram kemur í Fréttablaðinu .

Þó félagið sé afar sterkt fjárhagslega hefur hagnaður Gilhaga dregist verulega saman milli ára, eða um ríflega 66%, en hann nam 106,7 milljónum króna á árinu 2015. Hjá félaginu starfaði einn starfsmaður á síðasta ári, en Arnaldur og eiginkona hans eru bæði framkvæmdastjórar félagsins. Arnaldur sjálfur er skráður fyrir öllu hlutafé félagsins, en félagið hefur greitt út rúmlega 31 milljón krónur í arð.

Félagið hefur hagnast um meira en milljarð frá árinu 2003, en samanlagður hagnaður félagsins nemur 1.087 milljónum króna. Óráðstafað eigið fé félagsins nemur rétt tæplega 740 milljónum króna.