Tap Ríkisútvarpsins (RÚV) á síðasta rekstrarári, 1. september 2008 til 31. ágúst 2009, nam rúmlega 271 milljón krónum eftir fjármagnsliði, samanborið við tap upp á 736,5 milljónir á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í ársuppgjöri RÚV sem birt var í gær en afkoman batnar þannig um 465 milljónir króna á milli ára.

Tap ársins má að öllu leyti rekja til mikils fjármagnskostnaðar vegna verðbólgu og gengislækkunar íslensku krónunnar en rekstur stofnunarinnar lagast nokkuð á milli ára. Þannig skilaði rekstur RÚV rúmlega 628,2 milljóna króna hagnaði fyrir skatta og fjármagnsliði (EBIDTA), samanborið við tæpar 184 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Eigið fé RÚV er nú 515 milljónir króna en á sama tíma í fyrra var eigið fé RÚV neikvætt um 8,6 milljónir króna.