Matsfyrirtækið Fitch Ratings uppfærir ekki lánshæfiseinkunn Íslands en tekur áætlun stjórnvalda um afnám fjármagnshafta fagnandi.

Matsfyrirtækið Fitch Ratings segir að áætlun íslenskra stjórnvalda um afnám fjármagnshafta muni hafa jákvæð áhrif á ímynd þjóðarinnar í augum lánveitenda. Þó muni breytingar á lánshæfismati ráðast af því hversu vel framfylgd áætlunarinnar muni ganga á næstu mánuðum, m.a. með tilliti til gengis krónunnar.

Fitch hrósar áætluninni sem kynnt var á mánudag, þar sem fram kemur að slitabú bankanna hafi hálft ár til að uppfylla ákveðin stöðugleikaskilyrði. Ef það tekst ekki munu þau þurfa að greiða 39% stöðugleikaskatt af eignum sínum í árslok. Fitch telur að slitabúin þrjú; Landsbankans, Kaupþings og Glitnis muni þó uppfylla stöðugleikaskilyrðin innan tímarammans.

Þá kemur fram í yfirlýsingu matsfyrirtækisins að þó svo að áætlunin um haftaafnámið sé vel úthugsuð sé hún óumflýjanlega áhættusöm. Mikið útflæði fjármagns á stuttum tíma gæti leitt til skammtíma óvissu og flökts í gengi krónunnar. Gæti það sett pressu á verð innflutnings og greiðslujöfnuð. Er meðal annars nefnt að gengið gæti lækkað þegar fyrirtæki og sérstaklega lífeyrissjóðir fá tækifæri til að fjárfesta erlendis eftir að hafa verið bundin við innlendar fjárfestingar af höftunum.

Fitch hækkaði lánshæfismat Íslands frá BBB stöðugt í BBB jákvætt í janúar. Matinu verður ekki breytt að sinni en verður endurskoðað þann 24. júlí. Ljóst er að í heild sinni er fyrirtækið afar jákvætt með þróun mála.

Tilkynningu Fitch í heild sinni má lesa með því að smella hér .