Að sögn Einars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Pósthússins, var tap af rekstri félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins. Pósthúsið er rekið sem hlutdeildarfélag Dagsbrúnar og sér um dreifingu á prentmiðlum félagsins.

Einar sagðist ekki vilja upplýsa hve mikið tapið væri en sagði aðspurður að það væri "ívið meira" en áætlanir félagsins hefðu gert ráð fyrir en gert var ráð fyrir tapi.

"Áætlanir gerðu ráð fyrir að félagið yrði rekið með tapi í ár og ég gæti trúað því að tapið yrði meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Mönnunarmálin hafa verið erfiðari en við gerðum ráð fyrir," sagði Einar.

Þess má geta að áhrif hlutdeildarfélaga Dagsbrúnar voru neikvæð um 85 milljónir króna á síðasta ári og skýrðist það af rekstri Pósthússins. Þá var tap félagsins einnig meira en gert var ráð fyrir.

Fyrirhugaðar eru breytingar á dreifikerfi Pósthússins á næstu mánuðum, aukin áhersla verður lögð á dreifingu að nóttu til í stað tímabilsins milli klukkan sex og sjö að morgni.

Að sögn Einars er markmið þessara breytinga að mæta stöðugt vaxandi kröfum um öryggi og áreiðanleika í dreifingu auk þess sem þær eru liður í undirbúningi Pósthússins ehf. fyrir aukin umsvif í kjölfar þess að almenn dreifing pósts verður gefin frjáls á næstu árum.

Einar sagði að félagið væri að fara út í það að nota fullorðið fólk á nóttunni og því væri hinn hefðbundni "blaðberi" að líða undir lok.

"Við erum í miðju því ferli að manna þetta og enn sem komið er lítur það vel út. Þetta er ferli sem tekur töluverðan tíma enda nokkuð stór breyting. Enn sem komið er lofar þetta góðu."