Það er atvinnulífið sem skapar störfin og það er þörf ábending nú rétt fyrir kosningar þegar stjórnmálamenn keppast við að bjóða sem flest störf, eins og þeir stundi hér stórframleiðslu á alls kyns störfum

Þetta sagði Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins sem nú stendur yfir.

Andri tók sem dæmi að hann hefði lesið frétt fyrr í þessum mánuði með fyrirsögninni „Vaxtarmöguleikar í vanræktum greinum” en þar var átt við mat Vinstri grænna á horfum í atvinnumálum þjóðarinnar og haft var eftir formanni flokksins að mögulegt væri að skapa 16.900 til 18.700 ný störf á næstu árum.

Andri Þór sagði athyglisvert að formaðurinn hefði lagt áherslu á að flokkurinn væri ekki að skapa störfin heldur leggja til leiðir til þess að þau yrðu sköpuð, en þær leiðir sem fjallað var um voru aukin framlög til atvinnuþróunarfélaga, aukin framlög til Byggðastofnunar og aukunum framlögum til opinbera sjóða ásamt skattaívilnunum.

„Þetta hlýtur að kóróna vonleysið og ráðaleysið sem hrjáir íslenskir stjórnamálamenn. Yfirlýsingarnar hljóma vel en sagan svíður,“ sagði Andri Þór og spurði jafnframt hvort til staðar væru mörgu farsæl fyrirtæki sem opinberir sjóðir hefðu aðstoðað við að koma á laggirnar.

„Það eru nefnilega ekki stjórnvöld sem skapa störfin – það er atvinnulífið,“ sagði Andri Þór.

„Til þess að uppskeran verði góð þurfa stjórnvöld að skapa svigrúm til athafna. Ekki leggja til hömlur og afskipti. Íslenskt atvinnulíf þarf ekki á því að halda að fara 60 ár aftur í tímann með höftum, neyslustýringu, pólitískum klíkuskap og spillingu. Íslenskt atvinnulíf þarf ekki á því að halda að stofnað sé ríkis-hlutafélag í til að endurskipuleggja þjóðhagslega mikilvæg atvinnufyrirtæki. Íslenskt atvinnulíf þarf ekki á því að halda að ríkisbankar stundi kennitöluflakk.“

Andri Þór sagði nauðsynlegt að koma á fót stöðugum gjaldmiðli, stöðugu verðlagi og að vextir yrðu í samræmi við okkar helstu samkeppnislönd. Það skipti miklu máli hvort vatnsútflutningsfyrirtæki fengi 60 krónur eða 130 krónur fyrir dollarann.

Vatnið er glópagull

Andri sagði að ein af vonarstjörnunum fyrir íslensk atvinnulíf hefði verið, samkvæmt sumum stjórnmálaflokkum, útflutningur á vatni.

„Megum við eiga von á því að Byggðastofnun, atvinnuþróunarfélög og opinberir sjóðir fari að moka peningum í glórulausar fjárfestingar í útflutning á íslensku vatni?“ spurði Andri og bætti því við að fjárfesting í vélbúnaði og húsnæði hverrar verksmiðju væri ekki undir 2 milljörðum.

Þá sagði Andri að miðað við núverandi vaxtastig væri árlegur fjármagnskostnaður um 400 milljónir og afskriftir tækja um 200 milljónir. Útflutningurinn þyrfti því að standa undir þeirri upphæð að viðbættum rekstrarkostnaði og afborgunum lána. Til að standa undir þessu öllu þyrfti að selja 60 milljón flöskur af vatni eða u.þ.b. 3000 gáma á ári.

Andri Þór sagði að á síðustu 20 árum hafa a.m.k. 13 fyrirtæki orðið gjaldþrota í vatnsútflutningi.

„Það þarf meira en gott vatn eða gott hráefni til að ná árangri og fótfestu á erlendum markaði og hagnaði í rekstri,“ sagði Andri.

„Ég ætla rétt að vona að stjórnvöld og opinberir aðilar haldi sig víðs fjarri þegar skapa á ný störf við vatnsútflutning – vatnið er glópagull.“