Anna Bjarney Sigurðardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri útibúaþróunar og einstaklingssviðs Landsbankans. Um er að ræða nýtt svið innan bankans sem varð til við sameiningu sölu- og markaðssviðs og útibúaþróunar bankans.

Anna Bjarney er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur starfað í fjármálageiranum frá því hún lauk námi árið 1991. Undanfarin fjögur ár hefur hún verið forstöðumaður úitbúaþróunar á skrifstofu bankastjóra Landsbankans. Anna Bjarney starfaði áður hjá Búnaðarbankanum, síðast sem forstöðumaður á rekstrarsviði. Anna Bjarney er gift Jóni Val Jónssyni húsasmíðameistara og þau eiga þrjár dætur.

Með sameiningu sölu- og markaðssviðs og útibúaþróunar er ætlunin að ná fram aukinni skilvirkni og samhæfingu dreifileiða Landsbankans. Áfram verður áhersla lögð á að veita einstaklingum heildarlausnir í fjármálaþjónustu með háu þjónustustigi og öflugu sölustarfi.

Hermann Jónasson sem verið hefur framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hefur látið af störfum hjá Landsbankanum og ráðið sig til annarra starfa.