Misvísandi upplýsingar eru um í hvaða farvegi lánafyrirgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins handa íslenskum stjórnvöldum er.   AP-fréttastofan fullyrðir og vitnar í Dominique Strauss-Kahn, forstjóra IMF, að stjórn IMF hafi tekið ákvörðun um að veita lánið á fundi sínum í gær. Í frétt AP kemur fram að 2,1 milljarða dala lán hafi verið samþykkt og 833 milljónum yrði veitt strax til stjórnvalda. Ennfremur kemur fram að þar með opnist leið fyrir íslensk stjórnvöld til þess að fá aðstoð annarra Norðurlandaþjóða.

Í frétt AP, sem birt er á vef International Herald Tribune, er haft eftir Dominique Strauss-Kahn að stjórnvöld hafi sett saman metnaðarfullan efnahagspakka sem á geta endurreist traust á bankakerfinu og tryggt stöðugleika krónunnar gegnum sterkar efnahagsaðgerðir. Strauss-Kahn segir að þetta réttlæti að Íslendingum verði veitt drjúg lán og að stjórnvöld hér á landi eigi stuðning annarra þjóða skilin.

Á Vísi.is var um hádegið haft eftir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að stjórn IMF mundi fjalla um málið á mánudag. Þetta hafi komið fram í ræðu forsætisráðherra á Alþingi í morgun.

Dow Jones-fréttaveitan hefur eftir William Murray, talsmanni sjóðsins, að stjórn sjóðsins taki ákvörðun um lánið á morgun.

Sjá frétt AP