Í Morgunkorni Glitnis er vakin athygli á því að í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um mikið aðhald í aðgangi bankakerfisins að skammtímalánum frá Seðlabanka næsta kastið.

„Hafa skilyrði um tryggingar verið þrengd, sem gengur í gagnstæða átt við það sem seðlabankar víðast hvar í heiminum hafa verið að gera, og fyrirheit eru gefin um að aukning í lánum frá Seðlabanka til bankakerfisins verði lítil sem engin. Ætlunin með þessu virðist vera að ná meiri stjórn en áður á þróun peningamagns. Hins vegar virðist of mikið peningamagn í umferð ekki vera helsta vandamál hagkerfisins um þessar mundir, heldur eru þvert á móti blikur á lofti með að skortur verði á lánsfjármagni til íslenskra fyrirtækja og heimila," segir í Morgunkorninu.

Þar er bent á að fjármögnun banka með skuldabréfaútgáfu innanlands virðist ekki vera valkostur næsta kastið og alkunna er að erlend fjármögnun er nú útilokuð.

„Því er tæpast mögulegt að fjármagna útlán banka á næstunni öðru vísi en með innlánum viðskiptavina og lánafyrirgreiðslu Seðlabankans. Því þarf að búa þannig um hnútana að innlendur lausafjárskortur grafi ekki um sig og bætist við þau miklu vandamál sem hagkerfið glímir við þessa dagana," segir í Morgunkorninu.