„Bankarnir þurfa ekki að eiga þessi viðskipti ef þeir vilja það ekki,“ segir Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra í samtali við Viðskiptablaðið inntur eftir viðbrögðum við ummælum Hreiðar Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings um að aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í gær væru slæm tíðindi fyrir íslenskan fjármálamarkað.

Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar í gær kemur fram að stofnaðir verða tveir nýir lánaflokkar hjá Íbúðalánasjóði til að tryggja fjármögnun íbúðalána fjármálastofnana.

Annar þeirra snýr að endurfjármögnun íbúðalána sem þessar stofnanir veita en hinn að fjármögnun nýrra íbúðalána.

„Ef bankarnir telja sig ekki þurfa þetta þá er það auðvitað hið besta mál,“ segir Árni. „Bankarnir geta valið hvaða viðskipti þeir vilja stunda og ef þeir geta fjármagnað sig með öðrum hætti geri ég ekki athugasemd við það.“

Ekki vantraust á bankana

Aðspurður um hvort aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu vantraustsyfirlýsing á íslensku viðskiptabankana neitar Árni því að svo sé.

„Það hafa allir fundið fyrir þeirri lausafjárkrísu sem nú ríkir og með þessum aðgerðum erum við að auka aðgengi bankanna að lausafé,“ segir Árni og minnir aftur á að bönkunum sé frjálst að stunda þau viðskipti ef þeir vilja en eins að fjármagna sig með öðrum hætti.

Tækifæri til að kaupa ný krónubréf

Varðandi ný ríkisskuldabréf segir Árni það komi í kjölfar þess að jöklabréfin sem áður hafa verið gefin út eru brátt á gjalddaga.

„Við viljum gefa kaupendum krónubréfa tækifæri á að fjárfesta aftur í slíkum bréfum. Það er eitthvað sem íslensku bankarnir hafa ekki verið að gera undanfarið,“ segir Árni.