*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 31. desember 2007 16:28

Atlantic Petroleum hástökkvari ársins í Kauphöllinni

Aldrei hefur úrvalsvísitalan lækkað jafn mikið eins og síðasta ársfjórðung

Ritstjórn

Aldrei fyrr hefur úrvalsvísitalan lækkað jafn mikið á einum ársfjórðungi og á síðasta ársfjórðungi þessa árs en lækkunin nam tæplega 21%. Sá fjórðungur sem kemst næst þessum fjórðungi hvað lækkun varðar er annar fjórðungur ársins 2000 en þá lækkaði vísitalan um tæp 17%. Greiningadeild Glitnis segir frá þessu í morgunkorni sínu í morgun.

Atlantic Petroleum og Atorka hástökkvarar ársins

Fram kemur hjá greiningadeild Glitnis að í Kauphöllinni hækkuðu bréf Atlantic Petroleum mest eða um tæp 258% meðan Flaga Group lækkaði mest á árinu en félagið mátti þola um 68% lækkun. Af þeim félögum sem mynda úrvalsvísitöluna hækkuðu bréf Atorku Group mest eða um rúm 46% en FL Group lækkaði mest, eða um tæplega 43%.

Af stóru viðskiptabönkunum þremur auk Straums má sjá að Landsbankinn sker sig úr en árshækkun bréfa Landsbankans nam um 34% sem er langt er umfram hækkun Kaupþings sem kom næst með 4,6% hækkun. Straumur rak svo lestina en bréf bankans lækkuðu um rúm 13% á árinu.

Ágætt ár hjá rekstrarfélögunum

Glitnir segir að sá óstöðugleiki sem ríkt hefur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum undanfarnar vikur hefur komið verst niður á fjármála- og fjárfestingafyrirtækjum en þetta eru þau fyrirtæki sem borið hafa uppi meirihluta hækkunar íslenska hlutabréfmarkaðarins á undanförnum árum. Fyrrnefndur óstöðugleiki virðist ekki hafa haft eins mikil áhrif á rekstrarfélögin í Kauphöllinni en mörgum af þeim vegnaði vel á árinu og er Atlantic Petroleum þar í fararbroddi, segir í morgunkorni Glitnis.