Atvinnuleysi á evrusvæðinu jókst í febrúar og hefur nú ekki verið hærra í þrjú ár að sögn BBC.

Þannig mældist atvinnuleysi 8,5% í febrúar og hækkar úr 8,3% frá því í janúar samkvæmt gögnum Eurostat en um 13,5 milljónir manna eru nú atvinnulausir á evrusvæðinu.

Þá mældist atvinnuleysi í öllum ríkjum Evrópusambandsins að meðaltali 7,9% í febrúar og hækkar úr 7,7% frá því í janúar en um 19,2 milljónir manna eru nú skráðir atvinnulausir í ESB ríkjunum.

Hækkandi atvinnuleysi veldur forsvarsmönnum Evrópusambandsins nokkrum áhyggjum að sögn Reuters fréttastofunnar. Þó er talið að með minnkandi verðbólgu komi til með að hægja á aukningu atvinnuleysis. 12 mánaða verðbólga á evrusvæðinu mældist 0,6% í febrúar en var 1,2% í janúar.

Um tvær milljónir manna hafa nú misst vinnuna á einu ári á evrusvæðinu en sé litið öll ríki ESB hafa yfir þrjár milljónir manna misst vinnuna.

Mest mælist atvinnuleysið á Spáni eða 15,5% en þar á eftir koma Lettland með 14,4% og Litháen með 13,7%.

Minnst mælist atvinnuleysið í Hollandi eða 2,7%.