Skráð atvinnuleysi minnkaði um 0,3 prósentustig í september og mældist 2,8%, samkvæmt nýjum tölum Vinnumálastofnunar. Atvinnulausum fækkaði þá um 600 frá því í ágúst og voru að meðaltali 5.409 í september. Hagsjá Landsbankans fer yfir þessar tölur í nýrri Hagsjá bankans.

Atvinnuleysið hefur minnkað jafnt og þétt í kjölfar loka faraldursins. Það mældist hvað mest í byrjun faraldurs og jókst aftur í seinni bylgjunum. Frá og með haustinu 2021 hefur atvinnuleysið hins vegar meira og minna mælst undir 5%.

Hagsjá Landsbankans bendir á að þótt atvinnuleysi sé á hraðri niðurleið hafi það nokkrum sinnum mælst þó nokkuð lægra í septamber en nú. Skráð atvinnuleysi mældist 1,8% í september 2017 og þá var atvinnuleysi einungis 0,8% í september 2007. Í sama mánuði árið 2001 mældist það jafnframt 1%, eins og sjá má á grafinu hér að neðan.

Spenna á vinnumarkaði

Í Hagsjánni kemur fram að spenna sé á vinnumarkaði. Hún skapi þrýsting á laun, enda þurfa atvinnurekendur við þessar aðstæður að jafnaði að keppa um starfsfólk, til að mynda í ferðaþjónustu, í stað þess að starfsfólk keppi um störf.

Ein leið til að meta spennu á vinnumarkaði er að skoða mat stjórnenda fyrirtækja á vinnuaflsþörf.

„Stjórnendur um 54% fyrirtækja telja vanta starfsfólk, samkvæmt nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir Seðlabankann. Þetta hlutfall er mjög nálægt sögulegu hámarki og því skýr vísbending um þá spennu sem er á vinnumarkaðnum. Til samanburðar var hlutfallið í kringum 6% um mitt ár 2020. Vöntunin virðist mest í byggingarstarfsemi, verslun og greinum tengdum samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu.“

Ari Fenger, forstjóri 1912 ehf, var tekinn tali fyrr í vor í tilefni af Viðskiptaþingi. Þá sagði hann mikinn skort á starfsfólki sem hafi aukist jafnt og þétt samhliða lokum faraldursins.

„Það er sögulegur skortur á starfsfólki í dag. Um helmingur fyrirtækja, eða um 45%, telur sig búa við skort á starfsfólki, samkvæmt könnun Gallup og Samtaka atvinnulífsins meðal 400 stærstu fyrirtækja. Á sama tíma fyrir ári var hlutfallið 13%. Það er því mikill munur á milli ára.“

Ari sagði skortinn að miklu leyti stafa af því að landið hafi misst starfsfólk í heimsfaraldrinum og það hafi ekki skilað sér að fullu til baka. Hann benti janframt á að samkvæmt sömu könnun vanti um tólf þúsund manns í vinnu að utan á næstu fjórum árum.