Mikil velta var á skuldabréfamarkaði í gær og var dagurinn sá fjórði veltumesti með ríkisbréf og íbúðabréf frá upphafi samkvæmt Morgunkorni Glitnis. Velta með fyrrgreinda skuldabréfaflokka var tæplega 52 milljarðar króna í gær.

Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa, sem eru verðtryggð, lækkaði um 16-78 punkta sem endurspeglar miklar verðbólguvæntingar vegna gengislækkunar krónunnar. Mest lækkaði krafa HFF14 og stóð krafa hans í 4,80% í lok dags í gær. Krafa HFF44 lækkaði minnst og endaði krafa hans í 4,26%.

Kröfulækkun gærdagsins þýðir 2,08%-2,49% verðhækkun íbúðabréfa í gær. Það sem af er degi heldur krafa íbúðabréfa áfram að lækka samhliða áframhaldandi veikingu krónunnar og hún hefur lækkað um 5-20 punkta þegar þetta er skrifað, segir í Morgunkorni Glitnis.

„Hreyfingar ríkisbréfa voru ólíkar þar sem krafa RIKB 0812 og RIKB 10 lækkaði um 25 og 15 punkta en krafa annarra flokka hækkaði. Verðmyndun styttri flokkanna hefur að miklu leiti tekið mið af þróun á vaxtaskiptasamningum en sá markaður hefur þornað upp í mars og fjárfestar með stöðutöku í krónu hafa því leitað í stutt ríkisbréf. Verðþróun lengri flokka ríkisbréfa tekur hins vegar meira mið af væntingum um vexti og verðbólgu.

Gengislækkun krónunnar gerir það að verkum að líkur á að lengra sé í vaxtalækkun Seðlabankans aukast og auknar verðbólguvæntingar draga úr eftirspurn eftir ríkisbréfum, sem eru óverðtryggð. Krafa lengstu tveggja flokkanna hækkaði um 44 punkta í viðskiptum dagsins í gær og krafa RIKB 19 endaði í 9,9% í gær sem er 1% hærri en í fyrsta útboði í flokkinn sem var haldið seint í febrúar. Krafa styttri flokka ríkisbréfa hefur lækkað í viðskiptum dagsins en hækkað á lengri flokkum.“