Bændasamtök Íslands sendu frá sér umsögn til Alþingis vegna frumvarps fjármála- og efnahagsráðherra um niðurfellingu tolla á vörur sem eru upprunnar í Úkraínu. Í umsögn sinni lýsa bændasamtökin yfir áhyggjum sínum yfir því að verði frumvarpið að lögum geti það leitt til þess að landbúnaðarvörur frá Úkraínu verði fluttar í meira mæli til Íslands.

„Þá er það afstaða Bændasamtaka Íslands að lausn á vanda Úkraínu felist í því að bundinn verði endir á stríðsátökin sem þar geisa. Ísland eigi því að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að gert verði vopnahlé eða með öðrum hætti bundinn endi á stríðsátökin.“

Samtökin hafa mikla áhyggjur af því hvaða áhrif innflutningurinn kann að hafa á félagsmenn í ljósi erfiðrar stöðu í íslenskum landbúnaði sökum verðhækkana á aðföngum. Þá lýsa þau einnig yfir áhyggjum af því að í greinargerð er ekki vikið að því að fylgt verði eftir kröfum um heilbrigði matvæla sem fluttar verði inn samkvæmt heimildinni.

Jafnframt leggja samtökin til eftirfarandi breytinga á frumvarpinu:

  • Niðurfelling tolla nái eingöngu til þeirra landbúnaðarafurða sem að jafnaði hafa verið fluttar inn frá Úkraínu og þeir flokkar verði skilgreindir með nákvæmum hætti í frumvarpinu
  • Magn þeirra landbúnaðarafurða sem flytja má inn tollfrjálst verði skilgreint þannig að möguleg stærðargráða innflutnings liggi fyrir
  • Tryggvt verði að fylgt verði þeim heilbrigðiskröfum sem gerðar eru til innflutnings matvæla frá löndum utan Evrópusambandsins.