Helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hækkuðu hressilega í viðskiptum dagsins, en vitnisburður seðlabankastjórans Ben Bernanke fyrir þingnefnd virtist þar hafa úrslitaáhrif. Bernanke lagði til að fjármál hins opinbera gætu leikið stórt hlutverk í viðsnúningi efnahagsmála, og lagði seðlabankastjórinn meðal annars til að löggjafarvaldið íhugaði nýjar leiðir til að styðja við húsnæðismarkaðinn.

Afkoma iðanaðarrisans Halliburton var jafnframt framar væntingum fjárfesta sem hafði jákvæð áhrif. Bloomberg segir frá þessu.

Dow Jones hækkaði um 4,7%, S&P 500 um 4,8% og Nasdaq um 3,4%. Lækkun vísitalna frá áramótum er ennþá mikil. Frá áramótum hefur Dow Jones lækkað um 32% og S&P um 35%. Rót vandans er húsnæðismarkaðurinn í Bandaríkjunum, en afskriftir vegna fasteignatryggðra skuldabréfa og undirmálslána nema nú um 660 milljörðum dollara.