Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt umdeilt frumvarp sem gæti bannað samfélagsmiðilinn TikTok í landinu. Frumvarpið endar nú á borði Joe Biden Bandaríkjaforseta sem hefur áður sagt að hann muni undirrita það.

Frumvarpið gefur kínverska fyrirtækinu sem á TikTok, ByteDance, níu mánuði til að selja TikTok Ltd., dótturyfirtæki sitt í Bandaríkjunum. Ef það gerist ekki verður lokað fyrir smáforritið í landinu.

ByteDance hefur áður fyrr sagt í samtali við BBC að það myndi mótmæla öllum þvingunaraðgerðum til að selja TikTok en fyrirtækið hefur ekki tjáð sig um þessa nýjustu ákvörðun. Ef frumvarpið verður undirritað í lög gæti ferlið þó tekið mörg ár þar sem kínversk stjórnvöld þurfa að samþykkja söluna.

Frumvarpið um TikTok var hluti af öryggispakka sem innihélt alls fjögur frumvörp um hernaðaraðstoð til Úkraínu, Ísrael, Taívan og annarra samstarfsríkja í Kyrrahafinu.

„Í mörg ár höfum við leyft kínverska kommúnistaflokknum að stjórna einu vinsælasta smáforriti í Bandaríkjunum. Ný lög munu krefjast þess að kínverskir eigendur selji forritið,“ segir Marco Rubio, æðsti repúblikaninn í leyniþjónustunefnd öldungadeildarinnar.

Shou Zi Chew, forstjóri TikTok, sagði í síðasta mánuði að fyrirtækið myndi halda áfram að gera allt sem það getur til að vernda smáforritið. Hann hefur meðal annars þurft að mæta tvisvar fyrir bandaríska þingið til að andmæla tengslum hans við kínversk yfirvöld.