Fjárfestingar sjóða hjá Columbia Management, einu stærsta eignastýringarfyrirtæki Bandaríkjanna, í Marel hafa gengið vel og skilað góðri ávöxtun. Samtals eiga sjóðir á vegum Columbia tæplega 7% hlut í félaginu. Stóran hluta, eða ríflega 5 prósent, keyptu þeir á genginu 59 árið 2009, en gengi bréfa í félaginu nú er 130. Ávöxtunin hefur því verið meira en hundrað prósent frá því að stór hluti þeirra bréfa sem sjóðirnir eiga nú var keyptur.

Columbia var í eigu Bank of America Merril Lynch fram í september 2009 er Ameriprise Financial Inc. keypti Columbia á 1,2 milljarða dollara, eða sem nemur um 140 milljörðum króna. Eignir í stýringu er kaupin áttu sér stað voru um 165 milljarðar dollara, tæplega 20 þúsund milljarðar króna. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Boston í Bandaríkjunum. Samkvæmt frásögn Bloomberg af viðskiptunum fóru eignir Ameriprise í 379 milljarða dollara, eða sem nemur rúmlega 44 þúsund milljarða króna.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.