Bandaríska verslanakeðjan Bed Bath & Beyond (BBBY) undirbýr sig nú fyrir að sækja um greiðslustöðvun á næstu vikum en sala yfir hátíðarnar var undir áætlunum, samkvæmt heimildum Wall Street Journal.

Umsóknarferlið er enn á fyrstu stigum og gæti teygt sig inn í febrúarmánuð að sögn heimildarmanna WSJ. BBBY varaði við því í tilkynningu í gær að félagið gæti sótt um greiðslustöðvun. Verið sé að skoða alla valkosti í stöðunni, m.a. sölu á eignum, endurfjármögnun skulda eða að sækja nýtt fé.

Stjórn BBBY segist hafa verulegar efasemdir um rekstrarhæfi félagsins. Smásölufyrirtækið gerir ráð fyrir 386 milljóna dala tapi, eða sem nemur nærri 56 milljörðum króna, á þriðja fjórðungi fjárhagsársins sem lauk í nóvember síðastliðnum.

Hlutabréf BBBY féllu um 30% í gær og hafa ekki verið lægri í áratugi. Gengi félagsins hefur lækkað um 12% til viðbótar í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag.