Hlutabréf í fransk-belgíska bankanum Dexia hafa hríðfallið á síðustu tveimur dögum. Við opnun markaða í dag lækkuðu bréfin um nærri 40%. Bréfin hækkuðu þó aftur og nam lækkun dagsins 20%. Fjárfestar óttast að bankinn sé afar illa varinn fyrir mögulegu greiðslufalli Grikklands. Dexia er einn stærsti lánveitandi heims til sveitarfélaga og opinberra aðila.

Fjármálaráðherrar Frakklands og Belgíu fullyrtu í dag að stjörnvöld landanna muni verja bankann gegn falli. Þeir sögðust ráðast í hverjar þær aðgerðir sem séu nauðsynlegar, meðal annars ábyrgjast lán bankans. Meðal þess sem kemur til greina er að búa til „vondan banka“ um ákveðnar eignir Dexia.

Dexia heldur um ríkisskuldabréf Grikklands, Ítalíu og annarra evruríkja í skuldavanda að fjárhæð 20,9 milljörðum evra, að því er Financial Times greinir frá.