Hlutabréfamarkaðir ruku upp í Bandaríkjunum í dag eftir að Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna bar vitni fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings þar sem hann þvertók fyrir allar hugmyndir um þjóðnýtingu bankanna þar í landi.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 3,9%, Dow Jones um 3,3% og S&P 500 um 4%. Rétt er að geta þess að tvær síðarnefndu vísitölurnar náðu í gær 12 ára lágmarki.

Nokkur orðrómur hefur verið uppi um að bandarísk yfirvöld myndu þjóðnýta banka og fjármálastofnanir og hafa fjárfestar haldið að sér höndum vegna þessa. Talsmenn Hvíta hússins hafa lagt áherslu á að bönkum sé betur komið í einkaeigu en þó alltaf bætt því við að þjóðnýting sé ekki útilokuð, þó það kunni aðeins að vera gert í neyðartilvikum.

Þá var einnig nokkuð sterkur orðrómur um að Seðlabanki Bandaríkjanna myndi framkvæma sérstakt álagspróf á bönkunum til að sjá hvort þeir myndu standast slíkt próf og meta stöðu þeirra í framhaldi af því.

Bernanke þvertók fyrir allar slíkar hugmyndir eins og áður sagði og sagði að þrátt fyrir erfitt árferði stæðu bankarnir stöðugir og myndu fara í gegnum þessa erfiðleika. Hann útilokaði ekki að Seðlabankinn myndi veita þeim neyðarlán en það væri þá eingöngu til að koma þeim yfir erfiðasta hjallann.

Citigroup og Bank of America hækkuðu um rúm 20% í kjölfarið og fjármálahluti S&P 500 vísitölunnar hækkaði í fyrsta skipti í átta daga.

Hráolíuverð hækkaði í dag en við lok markaða kostaði tunnan af hráolíu 40 Bandaríkjadali og hafði þá hækkað um 4,1% frá opnun markaða.