Frumkvöðlar þurfa að huga fyrr að markaðsmálum samhliða tæknimálum. Það sjaldgæft að nýsköpunarfyrirtækjum gangi illa með tæknimálin en að koma vörunni á markað getur verið erfiðara. Þetta sagði Bjarki A. Brynjarsson, forstjóri Marorku, á kynningarfundi Startup Energy Reykjavík í hádeginu í dag. Hann sagðist vita það sjálfur sem verkfræðingur að það væri auðvelt að halda að tæknihlutinn skipti mestu máli. Það hefði hinsvegar sýnt sig að frumkvöðlar væru oft búnir með bensínið þegar kæmi að því að markaðssetja vöruna.

Bjarki tók fram að það þyrfti að styrkja nýsköpunarumhverfið og reyna að fá lífeyrissjóðina til að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum. Á fundinum hvatti hann fólk til að taka þátt í Startup Energy Reykjavík. Það væri skemmtileg tilbreyting að fara af skrifstofunni á stað þar sem væru pizzukassar, kók og mikil dýnamík.