Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra heillaðist af rökum Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Illuga Gunnarssonar, þingmanns flokksins, um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru sem þjóðargjaldmiðils. Össur var til svara í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera hlé á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið þar til eftir þingkosningar í apríl.

Það var Bjarni sem steig í pontu og viðurkenndi að hann hefði enga hugmynd haft um það hvort viðræðurnar hafi gengið hægt eða hratt.

„Menn hefðu átt að hugleiða það áður en lagt var af stað að forða því að þing og flokkar yrðu klofnir,“ sagði Bjarni.

Össur rifjaði hins vegar upp að Bjarni og reyndar Illugi líka hafi talað fyrir því á sínum tíma að taka upp evru í stað krónu.

„Ég man eftir því þegar formaðurinn hvatti til þess að evran yrði tekin upp. Enginn maður hefur sannfært mig jafn vel með sterkum rökum,“ sagði Össur en áréttaði að Bjarni hafi mælt fyrir einhliða upptöku gjaldmiðilsins í stað krónu.

Össur sagði viðræður við Evrópusambandið hafa gengið vel í sumum málum. Hægst hafi á þegar komið var að landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Báðum aðilum er aum að kenna, að sögn Össurar. Hvað landbúnaðarmálin snerti sé um heimatilbúinn vanda að ræða. Vandinn liggi hins vegar hjá Evrópusambandinu hvað sjávarútvegsmálin snertir.