Bjarni Benediktson fjár­málaráðherra tel­ur ekki ástæðu til að úti­loka fyr­ir­fram aðkomu er­lendra fjár­festa við sölu rík­is­ins á hlut í Lands­bank­an­um. Þetta kemur fram í samtali hans við Morgunblaðið um framtíð Landsbankans í kjölfar útgáfu skýrslu Bankasýslunnar um framtíð eignarhluta ríkisins í Landsbankanum.

Í stöðuskýrslu Bankaskýrslu ríkisins er sagt frá því að hún telji rétt að ríkið hefji sölu á allt að 28,2% eignarhlutar þess í Landsbankanum.

Þar segir að heimild sé fyrir sölu ríkisins á allt að 30% hlut í bankanum, og að miðað sé við að kynna tillögur fyrir ríkisstjórninni á þessum fyrsta ársfjórðungi 2016.

„Þetta er áfangi á þessari leið. Við förum yfir tillöguna og tökum næstu skref,“ sagði Bjarni í samtali við Morgunblaðið. „Þarna eru tækifæri til að losa um þennan eignarhlut og greiða skuldir.“

Þá segir hann að fara þurfi yfir það með Bankasýslunni hvað rétt sé að selja stóran hlut á einu ári. Ræða þurfi hvort rétt sé að fara hægar í söluferlið eða halda þeim möguleika opnum að erlendir aðilar geti komið að kaupunum.

Nauðsynlegt að vega og meta

Í skýrslunni segir að sala á íslenskum viðskiptabönkum til erlendra fjármálafyrirtækja sé söluaðferð sem nauðsynlegt er að vega og meta:

„Hafi erlent fjármálafyrirtæki áhuga að eignast hlut í íslenskum viðskiptabanka myndi það líklega vilja eignast allt hlutafé í bankanum eða að lágmarki meirihluta hlutafjár í honum. Bankasýsla ríkisins telur afar ólíklegt á þessari stundu að ráðist verði í sölu á eignarhlut í Landsbankanum með þeim hætti að komið yrði til móts við slík skilyrði væntanlegs kaupanda.

Í fyrsta lagi er vert að benda á að ekki er heimild í lögum nr. 155/2012 að selja hlut í Landsbankanum umfram 28,2%. Verður að telja ólíklegt að annað fjármálafyrirtæki hefði áhuga að eignast svo lítinn hlut í bankanum nema að undangengnu samkomulagi við ríkissjóð um forkaupsrétt á eftirstandandi hlut ríkisins í bankanum. Einnig er vert að benda á að ekki hafa átt sér stað á undanförnum misserum samrunar eða yfirtökur á bönkum á milli landa að sama skapi og í öðrum geirum efnahagslífsins. Það skýrist m.a. vegna þess að evrópskir bankar hafa verið að innleiða umfangsmiklar breytingar á regluverki sem hafa leitt til meiri eiginfjárkrafna eftir innleiðingu þeirra á tilskipun 2013/36/ESB (CRD IV tilskipunin) og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 (CRR-reglugerðin) sem og aukins tilkostnaðar við starfsemi utan heimalands eftir innleiðingu á tilskipun 2014/59/ESB (um skila- og slitameðferð fjármálafyrirtækja). Jafnframt er það svo að á evrópskum hlutabréfamörkuðum eru virðismargfaldarar yfirleitt hærri á þeim viðskiptabönkum sem einbeita sér að starfsemi í eigin heimalandi, frekar en þeim sem eru með starfsemi í fjölda landa.“