Nú hafa margir í ferðaþjónustunni, en einnig þeir sem reka alþjóðleg fyrirtæki hér á landi, talað fyrir aðild að Evrópusambandinu (ESB) og því að taka upp evru.

Björgólfur Jóhansson, forstjóri Icelandair Group, hefur áður lýst yfir andstöðu við því að ganga í ESB og aðspurður um það hvort það persónulega viðhorf hans hafi eitthvað breyst við það að starfa í ferðaþjónustu liggur ekki á snöggu, en ákveðnu, svari; "Nei!"

Í nýjasta tölublaði Viðskipablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Björgólf. Eftirfarandi kafli rataði þó ekki allur í prentútgáfu blaðsins og verður því birtur hér.

„Ég hef miklar efasemdir um að það að ganga inn í svona samfélag þjóða eins og ESB sé rétt leið fyrir lítið eyríki eins og okkur,“ segir Björgólfur.

„Ég er að sjálfsögðu fylgjandi miklum og opnum samskiptum við aðrar þjóðir á öllum sviðum og að því verður að vinna áfram. Við megum ekki einangrast. Ég tel hinsvegar að fyrir okkur sé mikilvægt að hafa fullt sjálfstæði og geta tekið allar ákvarðanir sem mest óhindrað af einhverju bandalagi þjóða, t.d. varðandi auðlindanýtingu.“

Aðspurður hvort að krónan sé sá gjaldmiðill sem rétt sé að treysta á segir Björgólfur að það sé nú annað mál.

„Við skulum samt alveg hafa það á hreinu að það er ekki krónunni að kenna hvernig komið er. Það eru mannanna verk hvernig krónan fór,“ segir Björgólfur.

„Stýring peningamála hefur ekki verið góð undanfarin mörg ár. Mikil þensla hefur verið á vinnumarkaði og hið opinbera kynnti undir í þeim efnum með miklum umsvifum þegar hið gagnstæða átti að vera uppi. Við því var varað af mörgum aðilum. Það er nokkuð skrýtið í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn var með stjórnartaumana en missti tökin og umsvif hins opinbera blés allt of mikið út. Ég efast samt um að einhverjir aðrir hefðu getað gert þetta betur. Mönnum fórst ekki vel í aðhaldi rekstrar hins opinbera í góðærinu. Vegna þessa virkaði peningastefnan ekki sem skyldi  og því náðum við ekki betri lendingu en raun ber vitni.“

Þá segist Björgólfur efast um að það sé Íslandi fyrir bestu, þrátt fyrir fyrri reynslu, að peningastefnunni sé stýrt annars staðar frá en á Íslandi.

„Menn segja að vextirnir séu of háir, það er alveg rétt. En þeir sveiflast samt bara upp og niður eftir því hvernig þenslan er í landinu og hún hefur verið mjög mikil og kynnt enn frekar undir með umsvifum hins opinbera,“ segir Björgólfur.

„Menn spyrja sig hvernig þetta hefði verið ef við hefðum verið með evru og það má vel vera að eitthvað væri öðruvísi nú. Íslandi hefur heilt yfir farnast bara nokkuð vel þrátt fyrir krónuna og ég tel að hún komi til með að hjálpa okkur við þá erfiðleika sem við glímum við núna. Menn tala stundum eins og öll okkar vandamál leysist með upptöku evru. Það bara er ekki þannig enda er vandi okkar margþættari en svo.“

Þá segir Björgólfur að nauðsynlegt sé að kynna landsmönnum vel hvað kann að fylgja aðild að ESB.

„Ef við ætlum að fara út í þetta þá þurfum við líka að segja fólki sannleikann um það hvernig hlutirnir verða,“ segir Björgólfur.

„Það má vel vera að það sé hagkvæmara fyrir margan rekstur, þ.e. að taka upp annan gjaldmiðil og maður hefur heyrt forstjóra stórra fyrirtækja að það sé nauðsynlegt að taka upp evru eða annan gjaldmiðil en krónuna. Þá má líka spyrja sig hvort að menn séu að tala um landið í heild sinni eða bara fyrirtækið. Sjálfur er ég hér að lýsa persónulegri skoðun á landsmálunum.“

_____________________________

Nánar er rætt við Björgólf í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag. Þar tjáir hann sig um stöðu félagsins eftir að það var selt út úr FL Group og hvernig farið var með það í höndum FL Group, framtíðarhorfur félagsins, endurskipulagninguna, sem nú er á lokastigi, og kjaradeilur við starfsmenn.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .