*

mánudagur, 6. apríl 2020
Innlent 6. september 2017 12:59

Bloomberg: Ísland lokar á Kínverja

Dómsmálaráðherra segir að nú sé unnið að löggjöf þar sem að þrengt verði að heimildum erlendra aðila til jarðakaupa á Íslandi.

Pétur Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Umræða um jarðeignir erlendra aðila hefur komist í kastljós fjölmiðla í kjölfar þess að greint var frá áformum kínverskra fjárfesta um það að kaupa 1.200 hektara jörð steinsnar frá Geysissvæðinu á 1,2 milljarð króna. Nú hefur alþjóðlega fréttaveitan Bloomberg gert málið að umfjöllunarefni sínu og í grein fréttaveitunnar kemur fram að íslensk stjórnvöld hyggjast herða löggjöf er varðar landareign erlendra aðila á Íslandi. 

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segir í samtali við Bloomberg-fréttaveituna að aukning hafi orðið á beiðnum á undanþágu til jarðakaupa. Samkvæmt ráðherranum er verið að undirbúa löggjöf þar sem hert er núverandi löggjöf að því er segir í fréttinni. Eins og sakir standa, þá geta einungis Íslendingar, einstaklingar innan EES, og erlendir aðilar sem hafa búið á Íslandi í fimm ár eða meira, keypt landareign á Íslandi. Útskýrt er að ágreiningur sé helst uppi þegar kemur að undantekningum sem að dómsmálaráðuneytið veitir. 

Í gær greindi Fréttablaðið frá því að dómsmálaráðherra hafi veitt erlendum ríkisborgurum utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) undanþágu til jarða- eða fasteignakaupa í níu tilvikum á þessu ári. Átta þessara ellefu umsókna voru frá Bandaríkjunum, en tveimur þeirra var hafnað. Ein kom frá Nýja-Sjálandi, ein frá Kanada og ein frá Ástralíu. 

Slæmt fyrir erlenda fjárfestingu

Rætt er við Ásgeir Jónsson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, í frétt Bloomberg. Þar er haft eftir hagfræðingnum að allar hömlur hafi neikvæð áhrif á erlenda fjárfestingu. Hann bendir á að ef litið er til ferðaþjónustu, þá er nauðsynlegt að eiga landareign eða fasteign til þess að geta tekið þátt í geiranum hér á Íslandi. 

Hann leggur áherslu á að skýrleiki og fyrirsjáanleiki séu það mikilvægasta þegar kemur að lagasetningu. „Öllum fjárfestum mislíkar óvissa og lagabreytingar,“ bætti Ásgeir Jónsson við. 

Lokað á kínverska fjárfestingu í annað sinn

Í greininni er enn fremur stuttlega rifjuð upp sagan af því þegar Ísland skellti í lás á kínverska fjárfestan Huang Nubo árið 2012. Nubo hafði áhuga á því að kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöllum í Norðurþingi. Þar vildi Nubo byggja fimm stjarna hótel og átján holna golfvöll og var gert ráð fyrir því að heildarfjárfestingin á svæðinu væri á bilinu 10 til 20 milljarðar króna. Í kjölfarið sótti kínverski fjárfestirinn um undanþágu frá innanríkisráðuneytinu. Þremur mánuðum eftir að tilkynnt hafi verið um kaupin þá var kveðinn upp sá úrskurður að Nubo fengi ekki að kaupa jörðina. Ögmundur Jónasson var þá innanríkisráðherra.