Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum hækkuðu í dag og hafa nú að sögn Bloomberg fréttaveitunnar ekki hækkað jafn mikið á einum mánuði í rúm 22 ár eða eftir niðursveifluna árið 1987.

Að sögn Bloomberg má rekja hækkanir dagsins til jákvæðra uppgjöra félaga á borð við Best Buy (sem margir spáðu gjaldþroti í fyrra) og ConAgra Foods auk þess sem General Motors (GM) tilkynnti í dag að félagið hefði gert starfslokasamning við um 7.500 manns sem þykir að mati viðmælanda Bloomberg gefa til kynna að félagið sé á lokastigum þess að endurskipuleggja rekstur sinn og geti vonandi farið að horfa fram á veginn.

Þetta samsvarar um 12% af öllum starfsmönnum GM en með því að gera starfslokasamning (en ekki hópuppsagnir) losnar félagið við dýrar greiðslur til verkalýðsfélaga auk þess sem talið er að félagið muni eiga auðveldara um vik við að ráða einhvern hluta aftur í hlutastörf og afleysingar sem ella hefði ekki verið hægt. Gengi bréfa í General Motors hækkaði um 14% í dag.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 3,8%, Dow Jones um 2,25% og S&P 500 um 2,3%.

Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna birti í dag tölu um hagvöxt sem sýndu að þjóðarframleiðsla á fjórða ársfjórðungi síðasta árs dróst saman um 6,3% þannig að hagvöxtur þar í landi nam aðeins 1,1% á síðasta ári. Það virðist ekki hafa haft mikil áhrif á markaði enda voru tölur hins opinbera lægri en spár greiningaraðila sem gert höfðu ráð fyrir samdrætti upp á 6,5% í það minnsta.

Hráolíuverð hækkaði í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 54,15 dali og hafði þá hækkað um 2,6% frá opnun í morgun.