Ekki fæst uppgefið hverjir það eru sem styðja baráttu Samtaka um nýja stjórnarskrá (SANS) sem þessa dagana háir kosningabaráttu fyrir því að fá tillögur stjórnlagaráðs samþykktar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um þær þann 20. október nk.

Til eru tvö félög sem taka þátt í barátunni fyrir nýrri stjórnarskrá í landinu. Annars vegar Stjórnarskrárfélagið og hins vegar Samtök um nýja stjórnarskrá (SANS). Bæði félögin berjast fyrir því að hér verði samin ný stjórnarskrá.

Þórir Baldursson, tónlistarmaður, er gjaldkeri beggja félaga. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Þórir að Borgarahreyfingin hafi með myndarlegum hætti stutt fjárhagslega við SANS. Aðspurður vill hann þó ekki gefa upp um hversu mikla styrki sé að ræða.

„Það telst ekki til siðs að upplýsa þannig,“ sagði Þórir í samtali við Viðskiptablaðið fyrr í dag.

Þegar blaðamaður spurði á móti hvort Borgarahreyfingin  hafi ekki einmitt barist fyrir því að þannig styrkir séu upplýstir vildi Þórir ekki tjá sig frekar um það. Hann sagðist þó, aðspurður, telja að heildarvelta SANA fyrir kosningarnar verði um fjórar milljónir króna.

Styrktir af skattgreiðendum

Rétt er að taka fram að Borgarahreyfingin nýtur enn styrkja frá ríkinu líkt og aðrir stjórnmálaflokkar sem eiga kjörna fulltrúa á Alþingi. Borgarahreyfingin fékk sem kunnugt er fjóra menn kjörna í alþingiskosningunum vorið 2009, þó enginn þeirra starfi nú undir merkjum flokksins lengur.

Aðspurður hvort SANS muni opinbera uppgjör eftir kosningarnar segir Þórir að það hafi ekki verið ákveðið en það komi þó vel til greina verði þess óskað. Daði Ingólfsson, framkvæmdastjóri SANS, segir þó að samtökin muni að sjálfsögðu skila opinberu uppgjöri.

Daði segir að tilgangur félagsins sé fyrst og fremst sá að hvetja fólk til að mæta á kjörstað. Hann segir þó að það sé einnig skoðun samtakanna að segja „já“ við öllu tillögum atriðum kosninganna nema þar sem spurt er um hvort að kirkjan eigi að vera hluti af stjórnarskránni.  Það sé í takt við tillögur stjórnlagaráðs.

Þá segir Daði að samtökin verði að öllum líkindum lögð niður eftir kosningarnar, fari svo að þær tillögur sem spurt er um verði samþykktar. Fari kosningarnar á hinn veginn segir Daði óvíst með framhaldið.

Mótmæli 07.07.2010. Þór Saari og Birgitta Jónsdóttir alþingismenn.
Mótmæli 07.07.2010. Þór Saari og Birgitta Jónsdóttir alþingismenn.
© Hörður Kristjánsson (VB MYND/ HKR)

Borgarahreyfingin fékk fjóra menn kjörna á Alþingi í kosningum 2009. Enginn þeirra starfar í dag undir merkjum flokksins.