Breska sjónvarpsstöðin Channel 4 hefur fjárfest í kannabisfyrirtækinu Cannaray í gegnum vísisjóð fjölmiðilsins. Channel 4, sem er í eigu breska ríkisins en fjármagnað með auglýsingatekjum, leiddi 10 milljóna punda, eða 1,3 milljarða króna, fjármögnunarlotu breska kannabisfyrirtækisins.

Í umfjöllun Financial Times segir að sjóðurinn Channel 4 Ventures, sem var settur á laggirnar árið 2014, eignist hlut í Cannarey gegn auglýsingaplássi á sjónvarpsstöðinni. Hvorki Channel 4 né Cannarey vildu greina frá umfangi samningsins.

Haft er eftir Vinay Solanki, framkvæmdastjóra Channel 4 Ventures, að landslagið í Evrópu fyrir kannabis í lækningaskyni og CBD-olíuna væri að stækka mjög hratt.

Kannabis í lækningaskyni var lögleitt í Bretlandi árið 2018 en notkun hefur aukist minna en gert var ráð fyrir. Sérfræðingar í kannabisiðnaðinum hafa kennt óhóflega mikilli skriffinnsku um dræmu viðtökurnar.