Vísitala byggingarkostnaðar reiknuð um miðjan janúar er 123,3 stig sem er hækkun um 2,1% frá fyrri mánuði. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands .

Helstu áhrifavaldar á vísitöluna eru þeir að verð á innfluttu efni lækkaði um 2,1% (áhrif á vísitölu -0,5%), en vinnuliður vísitölunnar hækkaði hins vegar um 9,9% (áhrif á vísitölu 2,7%) frá fyrri mánuði.

Hækkunina má fyrst og fremst rekja til þess að um áramótin féllu úr gildi lög nr. 10/2009 um tímabundna endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu á byggingarstað og þjónustu hönnuða og eftirlitsaðila.

Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitala byggingarkostnaðar hækkað um 3,7%. Vísitalan gildir í febrúar 2015.