Hlutabréfaverð evrópskra banka hefur lækkað töluvert í viðskiptum dagsins. Hlutabréfavísitalan Euro Stoxx 600 Banks, sem inniheldur stærstu lánveitendur Evrópu, hefur fallið um nærri 5% í dag.

Þýski bankinn Deutsche Bank leiðir lækkanir en gengi hlutabréfa hans hefur fallið um meira en 12% ‏það sem af er degi. Lækkun á gengi Deutsche kemur í kjölfar ‏þess að skuldatryggingarálag bankans til fimm ára hækkaði úr 134 punktum á miðvikudaginn í 198 punkta í dag.

Þá hafa hlutabréf þýska bankans Commerzbank og frönsku bankanna Société Générale og BNP Paribas lækkað um 7-9%.

Í umfjöllun Financial Times segir að svo virðist stjórnvöld beggja vegna Atlantshafsins séu ekki að takast að róa fjárfesta vegna stöðu bankakerfisins í kjölfar falls Silicon Valley Bank og Signature Bank og yfirtöku UBS á Credit Suisse.

Ekki er að sjá sama titring ‏þegar kemur að hlutabréfum íslensku bankanna. Gengi Arion banka hefur fallið um 2% í 180 milljóna veltu og stendur nú í 133 krónum á hlut. Nær engin viðskipti hafa verið með hlutabréf Kviku eða Íslandsbanka.

Uppfært: Í upphaflegu útgáfu fréttarinnar var bent á að hlutabréfaverð Nordea hefur lækkað um meira en 8% í dag. Ábending hefur borist um að lækkun á gengi Nordea megi að mestu rekja til arðgreiðslu en í dag er arðleysisdagur hjá bankanum.