Samið var við iðnaðarmenn í vikubyrjun og nú hafa samningar tekist við hjúkrunarfræðinga. Er því búið að semja við nær alla stærstu launþegahópana sem virtust fyrir nokkrum vikum ætla að þramma í takt fram af þverhnípi verkfallanna. Reyndar fóru opinberu starfsmennirnir í BHM og Félagi hjúkrunarfræðinga í verkfall, en blessunarlega var það stöðvað áður en mikill skaði hlaust af.

* * *

Þau stéttarfélög, sem ekki fóru í þessa vegferð með þeim stóru heldur ákváðu að bíða og sjá, munu nú gera sína samninga og munu þeir væntanlega taka mið af þeim samningum sem þegar hafa verið undirritaðir. Fimm til tíu prósenta launahækkanir í ár og 20%-30% launahækkanir yfir næstu fjögur.

* * *

Ofan í væntanlegar breytingar til hins betra í haftamálum er því búið að blása duglega í blöðru sem mjög auðveldlega gæti orðið að bólu, hvaða birtingarmynd sem sú bóla fengi.

* * *

Góður kunningi Týs sagði fyrir skömmu að Ísland væri nú í svipaðri stöðu og árið 2003. Efnahagslífið væri að sigla út úr kreppu og að fram undan væri mikið hagvaxtarskeið. Fátt bendir til annars en að þessi kunningi sé að lesa stöðuna rétt.

* * *

Sjaldan hefur því verið jafn mikilvægt að læra af sögunni og reyna að njóta hagvaxtarins og uppgangsins en forðast þau atriði sem gerðu fallið skaðlegra en ella. Eitt af því sem plagaði íslenska hagkerfið fyrir hrun var ásókn ásókn vaxtamunarbraskara í háa íslenska vaxtastigið. Vextir voru hér háir vegna þenslu og verðbólgu og var því hægt að hagnast vel á því að taka ódýr lán í jenum og fjárfesta í íslenskum pappírum.

* * *

Ómögulegt er annað en að launahækkanir þær sem verkalýðsforystan kreisti af miklu fyrirhyggjuleysi úr stjórnvöldum og fyrirtækjum muni leiða til aukinnar verðbólgu. Seðlabankanum ber lagaleg skylda til að bregðast við þeirri þróun og hann hefur, a.m.k. nú, fá tæki önnur en stýrivexti. Þurfti því ekki að koma neinum á óvart þegar peningastefnunefnd nánast lofaði vaxtahækkun í ágúst.

* * *

Fram undan er spennandi tímabil þar sem alls konar hlutir munu hækka verulega, að nafnvirði að minnsta kosti, en eins og alltaf kemur á endanum að skuldadögum. Týr vonar að timburmenn partísins sem verkalýðsforystan er búin að bjóða í verði ekki of erfiðir.