*

miðvikudagur, 22. september 2021
Erlent 21. júlí 2020 08:01

Sterkur dollari dýpkar Covid-kreppu

Í nýrri skýrslu segir að veikara gengi gjaldmiðla gagnvart dollaranum muni ekki örva hagkerfi jafn mikið og áður.

Ritstjórn
Aðrir ljósmyndarar

Gengi dollarans verður lykilþáttur í bataferli heimshagkerfisins á meðan aðrir gjaldmiðlar munu hafa minni áhrif, samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). 

Gjaldmiðlar nýmarkaðsríkja hafa fallið í verði gagnvart dollaranum frá því að kórónaveiran náði útbreiðslu. Veikara gengi gjaldmiðla hefur aukið vonir ýmissa aðila um samkeppnishæfari útflutning og hraðari bata hagkerfa. 

Í skýrslu AGS segir hins vegar að veikara gengi verði minna skilvirkur höggdeyfir heldur en í fortíðinni vegna hlutverks dollarans sem ríkjandi gjaldmiðils í viðskiptum og fjármálum. 

Þar sem útflutningur er að mestu leyti verðlagður í dollurum, þá eykst ekki eftirspurn þegar gjaldmiðlar heimaríkja veikjast. Um 23% af útflutningi heimsins er gerður upp í dollurum, en þá eru ekki taldir með hrávörumarkaðir sem einnig notast aðallega við dollara. 

Dollarinn er því orðinn lykilþáttur í vexti heimshagkerfisins. Þegar hann styrkist þá verður dýrara fyrir aðrar þjóðir en Bandaríkin að að greiða fyrir innflutning, sem dregur úr eftirspurn og efnahagslegum umsvifum. 

„Yfirburðir bandríska dollarans í viðskiptum og fjármálum er líklegt til að magna áhrif Covid-neyðarástandsins,“ segir í skýrslunni, sem var meðal annars skrifuð af Gita Gopinath, aðalhagfræðingi AGS, að því er kemur fram í frétt Financial Times.