Notendalausnir Origo höfðu átt mjög undir högg að sækja í nokkur ár og þrátt fyrir ágætan stöðuleika í sölu þá var afkoman óviðunandi. Mikil vatnaskil hafa hins vegar orðið sl. átján mánuði í rekstri einingarinnar sem hefur náð að snúa blaðinu við og er nú ein arðbærasta eining fyrirtækisins á þessu ári. Hagnaður einingarinnar nam um 240 milljónum króna fyrstu sex mánuði ársins 2021. Þá er EBITDA um 9% sem er það hæsta sem þekkist í sambærilegum einingum.

Árið 2017 fór Origo í mikla stefnumótun samfara nafnabreytingu félagsins. Sala á notendabúnaði hafði fylgt Origo/Nýherja frá stofnun en afkoman hafði ekki staðið undir væntingum í nokkurn tíma. „Það var sterkur fókus á hugbúnaðarþróun og þjónustuhlutann innan félagsins. Sala á notendabúnaði var ágæt en afkoman mjög slæm og menn spurðu sig að því hreinlega hvort hugbúnaður og notendabúnaður færu saman. Þetta er þróun sem hefur verið að gerast hjá mörgum fyrirtækjum víða í heiminum. Sem dæmi má nefna IBM sem seldu frá sér stærstu búnaðarsölueiningarnar og einblíndu að miklu leiti á hugbúnaðarhlutann,“ segir Gunnar Zoëga framkvæmdastjóri Notendalausna Origo.

Hann segir að starfsmenn í Notendalausnum fyrirtækisins hafi neitað að gefast upp heldur ákváðið að taka málin föstum tökum og sýna úr hverju þeir væru gerðir.

Á skömmum tíma tókst að gera Notendalausnir Origo, sem selur ýmis konar tölvubúnað til fyrirtækja ásamt því að vera með umboð fyrir þekkt vörumerki eins og Canon, Sony, Bose og Lenovo, að afar arðsamri einingu með um 240 milljóna króna hagnað á fyrstu sex mánuðum ársins 2021. Þá er EBITDA um 9% eins og áður segir sem er það hæsta sem þekkist í sambærilegum einingum. „Við náðum því að snúa tapi í góðan hagnað,“ segir Gunnar ánægður með árangurinn.

Hvað breyttist og hvernig var þetta hægt á svona sömmum tíma?

„Lykilllinn er rétt samsetning á búnaði, skýr fókus, stafræn þróun og mikilvægi mannauðs. Það má segja að þetta sé skólabókardæmi hvernig hægt er að þjappa hópnum saman, stilla saman strengi og ná ákveðnu markmiði með núverandi starfsmönnum. Það þarf ekki alltaf að skipta um starfsfólk til að ná árangri,“ segir Gunnar.