Nöturleg lögmál auðs og eklu munu sjá til þess að hveitibrauðsdagar næsta forseta Bandaríkjanna verði skammvinnir. Í raun og veru er það svo að vinna hans og næsta ráðuneytis á lausn efnahagsvandans og kreppunnar á fjármálamörkuðum mun hefjast strax.

Þrátt fyrir að fæstir hagfræðingar séu reiðubúnir að fullyrða að ástand á borð við það sem ríkti á fjórða áratug síðustu aldar sé yfirvofandi, er þess krafist að næsti forseti hefji vinnu að útfærslu efnahagsáætlunar sinnar sem fyrst – vaxandi atvinnuleysi, ástandið á fasteignamarkaðnum, minnkandi aðgangur heimilanna að lánsfé og minni neysla þeirra setja málaflokkinn í forgang.

Bandaríkjaþing verður kallað saman síðar í þessum mánuði til þess að samþykkja nýja efnahagsinnspýtingu í hagkerfið auk þess sem vinna að endurbótum regluverks fjármálakerfisins verður hafin. Haft er eftir Chris Dodd, formanni bankanefndar öldungadeildarinnar, að sá sem verði kjörinn forseti eigi á næstu dögum að tilkynna um hver verði næsti fjármálaráðherra og hverjir verði efnahagsráðgjafar ríkisstjórnarinnar.

Þetta efnahagsteymi mun vinna með þinginu fram að þeim tíma þegar forsetinn tekur formlega við embættinu.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .