Eimskipafélag Íslands ehf. hefur stofnað sjálfstætt fyrirtæki, Eimskip Reefer Logistics BV., sem mun annast flutningsmiðlun á frystum og kældum sjávarafurðum um heim allan. Fyrirtækið mun hafa aðalstöðvar í Hollandi en markmiðið með stofnun þess er að styrkja enn frekar heildarþjónustu Eimskips við sjávarútvegsfyrirtæki.

Hlutverk hins nýja fyrirtækis verður að samræma þjónustuframboð mismunandi starfsstöðva Eimskips, bæði á Íslandi og erlendis, að því er segir í frétt frá Eimskip. Tilkoma þess gerir Eimskip kleift að bjóða heildarþjónustu á sviði flutninga og geymslu á sjávarafurðum um heim allan. Nýja fyrirtækið mun þannig tengja saman núverandi þjónustu Eimskips, þjónustu norska flutningafyrirtækisins CTG, sem Eimskip eignaðist nýlega meirihluta í, og aðkeypta þjónustu ýmissa annarra skipafélaga og þjónustuaðila. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á þjónustu sem samhæfir gáma- og brettaflutninga þar sem það á við.

Eimskip Reefer Logistics mun hafa aðalstöðvar bæði í Rotterdam og á Schiphol flugvelli þar sem Eimskip býður flutningaþjónustu með flugi og rekur fyrirtækið Freshport sem annast afgreiðslu á ferskum matvælum. Eimskip hefur ráðið Hollendinginn Bas Giezen til að stýra fyrirtækinu, en hann hefur áratuga reynslu sem sölu- og markaðsstjóri eins af stærstu fyrirtækjum í Evrópu á sviði flutninga og geymslu á sjávarafurðum.