Fjárfestar telja að tekið sé að dofna yfir heillastjörnu bandaríska sjóðsstjórans John Paulson. Sjóður hans, Paulson & Co, sem er einn af fimm umsvifamestu vogunarsjóðum heims, hefur tapað verulegum fjárhæðum það sem af er ári.

Sjóðsstjórinn Paulson komst í heimsfréttirnar þegar hann hagnaðist um 3,7 milljarða Bandaríkjadali árið 2007 með því að veðja á hrun á fasteignamarkaði vestanhafs.

Virði eigna stærsta undirsjóðsins, Advantage, sem veðjar á bata efnahagslífsins vestanhafs, svo sem gengishækkun á hlutabréfamarkaði og hækkun á fasteignaverði, lækkaði um tæp tuttugu prósent í óstöðugleikanum á markaðnum í síðasta mánuði. Þá bætir ekki úr skák að efnahagsbatinn hefur látið bíða eftir sér. Virðið hefur nú lækkað um tæp 47 prósent frá áramótum. Þetta er tífalt meiri lækkun en aðrir sjóðsstjórar hafa þurft að horfa upp á.

Þá þurftu fjárfestar sem lögðu pening inn í hrávörusjóð Paulson að kyngja því að rúm 16 prósent fjárfestingarinnar gufuðu upp í síðasta mánuði. Verðmæti sjóðsins hefur aðeins aukist um 1,34 prósent frá áramótum.

Upplýsingar um fjárhagsstöðu sjóða Paulson voru birtar á föstudag í síðustu viku. Fréttastofa Reuters greindir frá því að viðskiptavinir hans séu langt í frá sáttir og megi ekki útiloka að einhverjir muni snúa við honum baki fyrir mánaðamót.