Kjarasamningar sem ná til meirihluta almenna vinnumarkaðarins voru afgreiddir í síðasta mánuði. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir verkefninu þó ekki lokið.

„Við vorum í hálft ár í aðdraganda kjaraviðræðna og í gegnum kjaraviðræðurnar að vinna náið með okkar viðsemjendum, verkefnið var að gera langtímakjarasamninga sem geta rutt brautina fyrir efnahagslegan stöðugleika en það skiptir miklu máli fyrir okkur að muna að stöðugleikinn kemur ekki af sjálfu sér.“

Af því tilefni hafa SA ákveðið að hefja eftirfylgni undir yfirskriftinni Stöðugleikarnir, sem samanstanda af samtali og opnum fundum fyrir atvinnulíf, stjórnvöld og almenning.

Læra að tala um tölurnar upp á nýtt

Nokkrir þættir í kjarasamningunum séu til þess fallnir að hafa umrædd áhrif. Í fyrsta lagi séu það launahækkanir en til að þær séu í samræmi við verðstöðugleika þurfi að horfa til þess hvernig framleiðni eykst á landinu sem og verðbólgumarkmiða.

Þar af leiðandi sé svigrúmið fyrir launahækkanir í kringum 3,5-4% en SA kostnaðarmetur nýja samninga fyrir atvinnulífið í heild upp á 4,1% árlega yfir fjögurra ára tímabil. Íslendingar séu þó orðnir of vanir því að laun hækki um 5-10%.

„Þessir kjarasamningar fela í sér grundvallarbreytingu á launastefnu og í því samhengi skiptir miklu máli að kíkja undir húddið,“ segir Sigríður Margrét en hún bendir á að hækkanir á lægstu launum leita, í hið minnsta að hluta, sögulega séð upp launastigann.
Eðlilega sé áhersla lögð á að hækka lægstu laun í núverandi aðstæðum en meira jafnvægi sé í nýjum samningum en við höfum séð um árabil.

„Ef við berum saman hækkun á allra lægstu laununum í þessum samningum yfir þetta fjögurra ára tímabil þá sjáum við að hún er 5,4% að meðaltali, stiglækkandi yfir tímabilið, en til samanburðar þá var hækkunin á lægstu laununum að meðaltali 9,4% síðustu fimm ár. Það hefur orðið breyting, í fyrsta lagi erum með hækkanir sem samræmast verðstöðugleika, í öðru lagi ætti stefnan að vera líklegri til þess að halda, að um hana skapist sátt. En til þess að það gerist þá þurfum við þetta samtal, það þurfa allir að læra að hugsa og tala um þessar tölur upp á nýtt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.