*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 17. desember 2016 10:10

Ekki sjálfgefið að ferðamenn komi

Styrking krónunnar ógnar að margra mati ferðaþjónustu á Íslandi. Mikill straumur ferðamanna um þessar mundir gæti gefið ranga mynd af stöðu mála þar sem áhrifanna fer ef til vill ekki að gæta fyrr en eftir 12-18 mánuði.

Ásdís Auðunsdóttir
Haraldur Guðjónsson

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir styrkingu krónunnar raunverulega ógn við ferðaþjónustu í landinu. Fyrirtæki í landinu séu nú þegar farin að finna verulega fyrir þróuninni en tíminn muni leiða í ljós hver langtímaáhrifin verði á samkeppnishæfni landsins sem áfangastaðar. Óstöðugt og ósamkeppnishæft rekstrarumhverfi hér á landi reynist ferðaþjónustunni erfitt líkt og öðrum útflutningsgreinum.

„Þessi mikla styrking krónunnar hefur haft neikvæð áhrif á greinina. Menn mega ekki gleyma því að fyrirtækin eru gjarnan að selja vöruna sína langt fram í tímann en fá svo greitt þegar ferðamaðurinn kemur til landsins. Gengisáhættan er því þeirra. Á sama tíma hafa fyrirtækin ráðist í mikla innviðafjárfestingu á undanförnum misserum t.a.m. tengt afþreyingu og gististöðum en það þýðir að fyrirtækin eru tiltölulega skuldsett á þessum tímapunkti og því er aukinn fjármagnskostnaður einnig að hafa neikvæð áhrif,“ segirHelga.

Ferðamenn eru ekki eins og olía

Aðspurð segir Helga styrkingu krónunnar vissulega vera ógn við ferðaþjónustuna. „Verðteygni ferðamannsins er nokkur vegna góðs orðspors okkar en við erum í gríðarlegri samkeppni við aðra áfangastaði og það er ekkert sjálfgefið að ferðamaðurinn komi til Íslands og hann kemur ekki hvað sem það kostar. Ferðamenn eru ekki eins og olía sem hægt er að skrúfa frá og fyrir eftir pöntunum eins og sumir telja. Við erum að selja ákveðna upplifun og ef upplifunin stenst ekki væntingar miðað við það sem greitt hefurverið fyrir hana þá verður hún neikvæð og netheimar eru fljótir að refsa. Afleiðingin er neikvæð ímynd og orðspor fyrir landið en í dag er það jákvætt og gott og það er mikilvægt að það haldi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.