Frosinn túnfiskur í röðum á Tsukiji, stærsta uppboðs fiskmarkaði heims í Tokyo, er merkileg sjón og hefur jafnan verið mikið aðdráttarafl ferðamanna. Það vakti því litla hrifningu í þeirra hópi er fiskkaupmenn í Tokyo bönnuðu aðgengi ferðamanna að snemmmorguns markaðnum. Ástæðan var óþolandi hegðun ferðamanna sem áttu það til að sleikja frosinn túnfisk og jafnvel reyna að faðma hann.

„Við skiljum vel að erlendum ferðamönnum þyki einstakt að sjá hundruð frosinna túnfiska,” sagði Yoshiaki Takagi eftirlitsmaður á markaðnum við fréttastofu AP.  „En þeir verða að skilja að Tsukiji markaðurinn er vinnusvæði, ekki skemmtigarður.”

Eitt af nýjustu atvikunum var þegar ölvaður breskur ferðamaður var myndaður af starfsmönnum japanskrar sjónvarpsstöðvar. Var hann þá að sleikja hausinn á einum hinna frosnu túnfiska og fikta í tálknum hans. Tveir aðrir ferðmenn náðust einnig á myndatökuvél þar sem þeir þeystu um svæðið á litlum vagni sem notaður er af fiskiheildsölum. Pirraður yfirmaður markaðarins öskraði þá á þá hástöfum á ensku: „Get out! Get out!

Takagi segir að fólk verði að átta sig á að túnfiskur er mjög dýr matvara. Einn fiskur geti hæglega kostað eina milljón jena, eða nærri 1,3 milljónir íslenskra króna.

Annar þáttur sem mjög hefur farið í taugarnar á fiskkaupendum og seljendum sem geta skipt 40.000 á hverjum, en það eru endalausar myndatökur og flassglampar. Flössin gerðu það að verkum að fiskkaupmennirnir gátu ekki séð fingramerkin sem þeir notuðu sín á milli í uppboðunum. Tsujuki segir að lítið tillit hafi verið tekið til þess þó uppi væru stór skilti sem á stóð: „No Flash,” eða bannað að flassa.

Fiskkaupmennirnir máttu þó ekki við margnum og létu undan fyrir háværum kröfum ferðaþjónustunnar og opnuðu markaðinn að nýju þann 19. janúar. Enda ekki skrítið, þar sem fiskmarkaðurinn er einn af tíu vinsælustu ferðamannastöðum fyrir útlendinga í Tokyo.