Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á Hótel Sögu, sem Háskóli Íslands og Félagsstofnun stúdenta eiga í dag.

Kostnaður við framkvæmdirnar er áætlaður um 5,4 milljarðar en hótelið var selt í lok árs 2021 á 4,9 milljarða króna.

Ríkissjóður Íslands og Félagsstofnun stúdenta keyptu húsið en í dag er eignarhaldið þannig að Fasteignir Háskóla Íslands eiga 75% hlut í byggingunni og Félagsstofnun Stúdenta 25%. Nýta á húsið undir starfsemi Háskóla Íslands og stúdentaíbúðir.

Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignum Háskóla Íslands munu endurbæturnar kosta félagið tæplega 3,6 milljarða króna. Er það kostnaður við framkvæmdir á ytra byrði hússins, sem og framkvæmdir á rýmum innanhúss. Laga þarf aðgengi, loftræstingu, tölvulagnir, ljós og ýmislegt fleira. Á þaki Hótel Sögu var um árabil veitingastaðurinn Grillið. Verið er að færa það í upprunalegt horf og verður staðurinn í framtíðinni nýttur fyrir viðburði á vegum Háskóla Íslands en einnig stendur til að hann verði opinn almenningi að einhverju leyti.

Samkvæmt upplýsingum frá Félagsstofnun Stúdenta nemur kostnaður þess við endurbætur um 1.850 milljónum króna. Inni í þeirra fjárhæð er hlutur stofnunarinnar í framkvæmdum utanhúss, sem og við gerð 111 stúdentaíbúða og fjögurra sameiginlegra setustofa.

Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum við bygginguna um næstu áramót.