Íslensk stjórnvöld stóðu frammi fyrir ótrúlegum og áður óþekktum aðstæðum í október 2008. Gripið var til þess ráðs að setja neyðarlög í landinu, skipta föllnum bönkum upp í nýja og gamla og skilja erlendar eignir og skuldbindingar eftir í þeim gömlu. Hinir nýju voru hins vegar endurreistir með nýjan efnahagsreikning og allar innlendar innstæður færðar inn í þá.

Gagnrýnisraddir á aðgerðir ríkisvaldsins hafa verið þó nokkrar. Þær hafa helst snúist um að aðrar, og hefðbundnari leiðir, hefðu verið færar við þær aðstæður sem sköpuðust. Í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna, sem Þorsteinn Þorsteinsson skrifaði og var kynnt í ríkisstjórn í lok mars, er fjallað um þá valkosti sem hafa verið helst nefndir af gagnrýnisröddunum.

3. Yfirtaka á innstæðum með hámarki á hvern aðila hefði aukið tjónið

Í umræðunni eftir hrun hefur sú hugmynd að íslensk stjórnvöld hefðu átt að færa að millifæra allar innstæður upp að ákveðinni upphæð, til dæmis að lögbundinni lágmarkstryggingu upp á 20.887 evrur eða hlutfall af innstæðu, skotið upp kollinum. Skýrsluhöfundur gefur ekki mikið fyrir þessa leið og segir að hefði hún verið farið þá hefði endurskipulagning bankanna líkast til misheppnast.

Tjónið hefði orðið meira

Orðrétt segir að „hafa verður í huga að innstæður á bankareikningum erum ekki einungis sparifé einstaklinga. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir geyma laust fé á innstæðureikningum og ef yfirfærslan hefði takmarkast við lágar fjárhæðir hefði ekki verið unnt að greiða laun eða framkvæma hefðbundna greiðslumiðlun í samfélaginu.

Það hefði leitt til keðjuverkandi vandræða sem ekki hefði verið unnt að bregðast við. Með því móti hefði tjónið orðið mun meira en það þó varð vegna bankahrunsins.[...]Eftir skiptingu bankanna hefur sú skoðun skotið upp kollinum í opinberri umræðu að hagstætt hefði verið fyrir efnahagslífið og þá sérstaklega lántakendur að flytja aðeins hluta innlendra innstæðna til nýju bankanna. Hefur þetta verið sett fram þannig að við það hefðu bankarnir skapað sér meira svigrúm til niðurfærslu skulda“.

Tiltrú hefði beðið hnekki

Í skýrslunni segir að þetta sé röng röksemdarfærsla. „Ef bankarnir hefðu tekið minna yfir af innlendum innstæðum en þeir gerðu, hefðu þeir orðið að gefa út stærra skuldabréf til gömlu bankanna sem bætur fyrir yfirteknar eignir. Staða nýju bankanna hefði því að þessu leyti verið óbreytt, en tiltrú innlendra innstæðueigenda á fjármálakerfinu hefði beðið hnekki“.

Niðurstaðan er því sú að það hafi ekki verið fýsilegur kostur fyrir íslensk stjórnvöld að fara þessa leið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.