Í máli Ögmundar Jónassonar um skýrslu rannsóknarnefndar um sparisjóðina á Alþingi í vikunni kom fram að innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hafi ekki verið ágreiningur um að sú ákvörðun að endurreisa Sparisjóðinn í Keflavík sem SpKef sparisjóð hafi verið pólitísk. Hins vegar hafi ekki verið tekið undir sjónarmið um að pólitískur þrýstingur hefði haft áhrif á störf eftirlitsstofnana.

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður sagði að þegar niðustöður skýrslunnar væru skoðaðar komi í ljós að allar þær áhyggjur sem hann hafi haft og allar þær athugasemdir sem setta hafi verið fram hafi verið réttmætar. „Má í raun segja að, ef eitthvað var, þá vanmátum við hvað  var í gangi. Allir vöruðu við þeirri leið sem farin var af hálfu síðustu ríkisstjórnar. Og málið er mjög einfalt, vegna þess að þessi leið var farin, þá kostaði hún milljarða fyrir íslenska skattgreiðendur.“

Ögmundur sagði í ræðu sinni að ljóst væri að víða hefðu verið brotalamir í rekstri sparisjóðanna fyrir fall þeirra. Allt hefði miðast að því að gera þá sem líkasta bönkunum og að þeir hefðu með því fjarlægst gömlu gildi sparisjóðanna.

Brynjar Níelsson, sem situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sagði  í nefndinni hafi verið sérstök áhersla lögð á mamálefni SpKef, sem hafi átt að vera grunnstoð í endurreisn sparisjóðakerfisins. „Niðurstaða okkar er að hér hafi verið gerð mistök, sem kostað hafi skattgreiðendur mikið fé, meira heldur en þurfti, ef farin hefði verið sama leið og farin var við endurreisn annarra fjármálafyrirtækja.“

Bynjar hélt áfram: „Útilokað er að réttlæta það með nokkrum hætti, að mínu viti, að FME skyldi veita sex mánuði í viðbót eftir sex mánaða framlengingu á undanþágunni, án þess að geta gefið nokkur haldgóð rök fyrir því þegar fulltrúar FME komu fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.“