Forráðamenn Century Aluminum Company, móðurfélags Norðuráls, greindu frá því á fundi með fjárfestum á þriðjudaginn, þegar þriðji ársfjórðungur félagsins var kynntur, að svo kynni að fara að framkvæmdir Norðuráls í Helguvík yrðu endurskoðaðar.

Logan Kruger, forstjóri Century, sagði að undanfarið hefði félagið verið að glíma við áhrif þeirrar fjármálakreppu sem riðið hefði yfir Ísland og gæti haft áhrif á framkvæmdirnar.

Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins í dag.

Að sögn Ragnars Guðmundssonar, forstjóra Norðuráls, er unnið að því að yfirfara allar áætlanir sem tengjast verkefninu í Helguvík með tilliti til þeirra breytinga sem hafa orðið í hinu ytra umhverfi.

„Við munum vinna að þessu á næstu vikum en á meðan halda framkvæmdir áfram eins og ekkert hafi ískorist. Það hafa augljóslega komið upp tækifæri til að lækka kostnað, meðal annars vegna lækkunar á stálverði, og svo hafa orðið innlendar breytingar sem hafa áhrif á kostnað. Við erum því að endurmeta stöðuna. Það eru einnig tækifæri í stöðunni," sagði Ragnar.

Hann taldi aðspurður að það væri mikil oftúlkun á ummælum forráðamanna Century að ákveðið hefði verið að fresta framkvæmdum, eins og lesa má úr skýrslu Credit Suisse.

Norðurál var í samstarfi við Kaupþing og Landsbankann auk eins erlends banka um lánsfjármögnun framkvæmdanna. Sem gefur að skilja hefur hrun íslensku bankanna veruleg áhrif á málið og er nú verið að leita nýrra leiða við fjármögnunina.

Eftir því sem komist verður næst verður haldið áfram með þær framkvæmdir sem eru nú þegar í gangi en nýir samningar verða ekki gerðir fyrr en fjármögnun er tryggð.

Logan Kruger, forstjóri Century, sagði á fjárfestafundinum að félagið væri nú þegar farið að verða vart við minnkandi eftirspurn eftir áli, sérstaklega frá Kína, sem hefði verið helsti kaupandi áls um skeið. Um leið hefði kostnaður verið að hækka.

Hann sagði að starfsemin á Íslandi gengi mjög vel og forráðamenn Norðuráls hefðu lagt áherslu á að ná sem mestri framleiðslu út úr ferlinu.