Í minnisblaðið Vinnumálastofnunar til félagsmálaráðherra segir að erlent starfsfólk á íslenska vinnumarkaðnum hafi skv. áætlun stofnunarinnar verið komið yfir 17.000 manns árið 2007, sem er yfir 9% af vinnuaflinu.

Á seinni parti ársins 2007 hafi brottflutningur hins vegar aukist mikið.

Til marks um þá þróun bendir stofnunin á útgáfu vottorða um staðfestingu á atvinnu sem erlendir ríkisborgarar sæki sér þegar þeir fara af íslenskum vinnumarkaði. Það sem af er ári hafa 1.600 slík vottorð verið gefin út samanborið við 1.200 allt árið í fyrra og 500 árið 2005.

Stofnunin reiknar með að erlendir starfsmenn séu nú 16.000 en verði á bilinu 13-14.000 í árslok 2008. Atvinnulausum erlendum ríkisborgurum hefur líka fjölgað töluvert á síðustu mánuðum; á sumarmánuðum 2007 voru þeir að jafnaði 110 talsins en hefur fjölgað jafnt og þétt síðan þá.

Í mars sl. voru 200 erlendir ríkisborgarar á skrá, í júlí fór fjöldinn yfir 230 og hefur fjölgað enn í ágúst þótt endanlegar tölur liggi ekki fyrir.