Fjármálaráðherrar Evrópusambandins urðu við beiðni Frakklands um tveggja ára framlengingu til þess að reyna að koma tekjuhalla landsins undir 3% af landsframleiðslu, eins og lög ESB kveða á um. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Er þetta þriðja framlengingin sem Frakkar hafa fengið síðan árið 2009. Talið er að tekjuhalli Frakka verði 4,1% af landsframleiðslu í ár þar sem þeir glíma við hátt hlutfall atvinnuleysis.

Gagnrýnendur vara við því að veiting þessara framlenginga grafi undir trúverðugleika sambandins. Fjármálaráðherrarnir sögðu í yfirlýsingu sinni að viðleitni Frakka til að lækka tekjuhallann frá 2013 væri ástæðan fyrir því að þeir hafi orðið við óskum þeirra. Auk þess þyrfti að taka með inn í reikninginn að efnahagsskilyrði væru erfið.

Eitt af skilyrðum sem Evrópusambandið fór fram á var að Frakklandi myndi koma hallanum niður um 0,2% af landsframleiðslu fyrir lok aprílmánaðar á þessu ári.