Exeter-málið svokallaða verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Um er að ræða fyrstu ákærurnar frá embætti sérstaks saksóknara sem sett var á laggirnar eftir bankahrunið. Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byr, Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, og Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, eru allir ákærðir í málinu.

Allir eru ákærðir fyrir umboðssvik sem hafi valdið Byr verulegu fjárhagstjóni. Málið snýst um 1,1 milljarðs króna lánveitingu, í tveimur hlutum, sem Byr lánaði félaginu Exeter Holding í október og desember 2008. Lánið var notað til þess að kaupa stofnfjárbréf af stjórnarmönnum Byrs, Jóni Þorsteini Jónssyni og Ómar Karli Haraldssyni, á yfirverði. Styrmir Þór er ákærður fyrir hlutdeild í þessum brotum en hluti lánsins fór í að kaupa stofnfjárbréf sem voru í eigu MP banka.

Lögmaður Jón Þorsteins Jónssonar er Reynir Karlsson hrl., lögmaður Ragnars Z. er Ólafur Eiríksson hrl. en lögmaður Styrmis Þórs er Ragnar H. Hall hrl. Björn Þorvaldsson sækir málið fyrir hönd embættis sérstaks saksóknara.