Oslo Bors VPS Group sem m.a. rekur norsku kauphöllina hagnaðist um 233 milljónir norskra króna í fyrra. Það jafngildir rúmum 5,2 milljörðum íslenskra króna. Þetta er 16% samdráttur á milli ára en í hittifyrra nam hagnaðurinn 277 milljónum norskra króna.

Helstu liðir félagsins drógust sömuleiðis lítillega saman á milli ára. Þar á meðal námu tekjurnar í fyrra 922 milljónum norskra króna sem er 2% minna en árið á undan. Rekstrarhagnaður fyrir árið í heild nam rúmum 467 milljónum norskra króna samanborið við tæpan hálfan milljarð árið 2010.

Stjórn Oslo Bors VPS Group hefur lagt til að hluthafar í félaginu fái í greiddar sex norskar krónur í arð vegna afkomunnar í fyrra. Það jafngildir 134,72 íslenskum krónum á hlut.

Fjárfestingarfélagið Horn, dótturfélag Landsbankans sem heldur utan um eignir bankans í skráðum og óskráðum verðbréfum, á 6,45% hlut í Oslo Bors og er þetta stærsta erlenda eign félagsins fyrir utan hlut í Intrum. Samkvæmt þessu gæti arðgreiðsla til Horns numið rétt rúmum 16,6 milljónum norskra króna, jafnvirði rúmra 350 milljóna króna.

Nokkuð er um liðið síðan tilkynnt var að stefnt væri að því að skrá Horn á hlutabréfamarkað síðar á þessu ári.

Ekki náðist í Hermann Má Þórisson, framkvæmdastjóra Horns, við vinnslu fréttarinnar.