*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 26. ágúst 2021 10:31

Festi fyrst til að skrá kolefnisbindingu

Festi mun fyrst allra fyrirtækja á Íslandi skrá kolefnisbindingu sína í Loftslagsskrá Íslands.

Sveinn Ólafur Melsted
Guðmundur Sigbergsson, framkvæmdastjóri Loftslagsskrár Íslands, Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri við undirritun verksamnings sem fór fram á starfstöð rannsóknasviðs Skógræktarinnar á Mógilsá í Kollafirði.
Aðsend mynd

Eignarhaldsfélagið Festi hf. mun, fyrst allra fyrirtækja á Íslandi, skrá kolefnisbindingu sína í Loftslagsskrá Íslands samkvæmt kröfum Skógarkolefnis, verkefnis sem Skógræktin hefur verið með í þróun um nokkurt skeið. Festi skrifaði á dögunum undir verksamning við Loftslagsskrá Íslands og Skógræktina, sem aðstoðar fyrirtækið við innleiðingu verkefnisins fyrst um sinn. Verkefnið verður staðfest og vottað af óháðum aðila og hefur nú þegar verið forskráð í Loftslagsskrá.

Áætlað er að yfir hálf milljón trjáplantna verði gróðursett með nýskógrækt í þessu fyrsta verkefni á næstu þremur árum. Sömuleiðis er áætlað að á næstu 50 árum muni kolefnisbinding Festi nema um 90.000 tonnum af CO2, sem er meira en öll væntanleg losun vegna starfsemi Festi og rekstrarfélaga á sama tímabili. Gróðursett verður á 250 hektara landi sem er í eigu Festi við Fjarðarhorn í Hrútafirði og hefst gróðursetning vorið 2022.

Aðgerð sem skipti verulegu máli

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, segir að með þessu sé fyrirtækið að stíga stórt skref í umhverfismálum. Aðgerðin skipti verulegu máli í stóra samhenginu og sé jafnframt mælanleg og sýnileg.

„Okkur fannst skortur á verkefnum á sviði umhverfismála þar sem árangurinn er bersýnilegur. Umhverfismál hafa verið mikið í umræðunni undanfarið og hafa mörg minni skref verið stigin í þeim efnum innan okkar fyrirtækja. Öll fyrirtækin eru sem dæmi mjög dugleg í að flokka og Krónan var fyrsta matvöruverslunin til að hætta notkun burðarpoka úr plasti. Allt eru þetta fremur litlar aðgerðir í stóra samhenginu en mikilvægar engu að síður. Við höfðum því mikið velt fyrir okkur hvernig við gætum tekið enn stærri skref hvað umhverfismálin varðar, sem skipta verulega miklu máli. Þar af leiðandi var sett í gang vinna innanhúss þar sem velt var upp hvað við gætum gert til þess að hafa verulega jákvæð áhrif á umhverfið."

Fyrir um ári hafi svo komið upp hugmynd um að nýta landið í Hrútafirði, rétt hjá Staðarskála,  undir skógrækt. Að sögn Eggerts leggur Festi um 100 milljónir króna í verkefnið til að byrja með.

„Margt fólk innan okkar raða hefur áhuga á þessu og þegar það sást á tölum á blaði hvað þessi aðgerð myndi skipta miklu máli var engin spurning um að kýla á þetta. Þarna er verið að fjárfesta í verkefni sem mun raunverulega hafa mjög mikil áhrif til góðs. Það er mjög auðvelt fyrir stjórnendur fyrirtækja að tala digurbarkalega um hversu mikið fyrirtækið leggur til umhverfismála en með þessu getum við auðveldlega sýnt fram á það sem Festi leggur til málanna."

Stefna á skóg í hverjum landsfjórðungi

Eggert bendir á að nóg pláss sé víða um land sem hægt sé að nýta undir skógrækt. „Ólíkt nágrannalöndum okkar á borð við Noreg og Svíþjóð, sem þegar eru skógi þakin, getum við brugðist við loftslagsvánni með því að planta fleiri trjám. Skógar búa líka til skjól, sem oft á tíðum er ekki vanþörf á hér á Íslandi," segir Eggert kíminn.

Festi hefur einnig áform um frekari gróðursetningu og loftslagsverkefni á fleiri landsvæðum vítt og breitt um landið á næstu árum. „Við höfum velt því fyrir okkur að búa til einn skóg í hverjum landsfjórðungi fyrir sig. Þannig viljum við hafa góð áhrif á umhverfið um allt land, auk þess sem þetta mun gera ungu fólki um land allt tækifæri til þess að fá sumarvinnu við umhirðu skóganna og að planta trjám. Þetta mun því efla atvinnustig á þeim svæðum þar sem skógarnir rísa. Þá eru skógarnir hugsaðir sem útivistarsvæði með bekkjum, borðum og aðstöðu til útivistar fyrir fólk. Það eru því margir jákvæðir fletir á þessu," útskýrir Eggert.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.