*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 16. september 2021 17:35

FÍA hrósar sigri gegn Bláfugli

Uppsagnir fraktflugfélagsins Bláfugls á félagsmönnum FÍA í lok síðasta árs voru ólögmætar að mati Félagsdóms.

Ritstjórn
Félagsdómur hefur aðsetur í dómshúsi Landsréttar.
Aðsend mynd / Haraldur Guðjónsson

Félagsdómur úrskurðaði í dag að uppsagnir fraktflugfélagsins Bláfugls á félagsmönnum Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) í lok síðasta árs hafi verið ólögmætar. FÍA hafði þar betur gegn Samtökum atvinnulífsins sem fór fyrir Félagsdómi fyrir hönd Bláfugls. Þetta kemur fram í færslu FÍA á Facebook.

Í desember síðastliðnum var öllum ellefu flugmönnum Bláfugls sem eru í stéttarfélagi sagt upp störfum, í miðjum kjaraviðræðum. Í tilkynningu flugfélagsins samhliða uppsögnunum kom fram að flugmenn FÍA hafi verið „lang-launahæstu“ starfsmenn félagsins. Eftir að uppsagnirnar komu til framkvæmda voru sjálfstætt starfandi flugmenn hjá Bláfugli fjörutíu talsins.

„Málsatvik eru þau að íslenskt fyrirtæki í örum vexti rekur alla félagsmenn stéttarfélags á einu bretti en hafði stuttu áður ráðið til sín sambærilegan fjölda gerviverktaka sem gengu beint í störf stéttarfélagsmanna. Þetta var gert þrátt fyrir að í kjarasamningi milli aðila hafi verið skýr ákvæði um forgangsrétt félagsmanna FÍA til starfa hjá Bláfugli sem dómurinn staðfesti að séu enn í gildi, rétt eins og Landsréttur hafði áður komist að niðurstöðu um,“ skrifar Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA í færslunni.

„Þetta er mikilvægur sigur í baráttu stéttarfélaga, eftirlitsaðila og stjórnvalda gegn gerviverktöku,“ segir Jón Þór.

Sigurður Ágústsson, forstjóri Bláfugls, sagði við Viðskiptablaðið fyrr í ár að flugfélagið verði ekki samkeppnishæft öðruvísi en að kjör kjarasamningsbundinna flugmanna þess lækki verulega. Kjörin séu með þeim hæstu á landinu og langt yfir því sem þekkist hjá samkeppnisaðilum fyrirtækisins.